Ný verðlaunatillaga SPITAL um áfangaskipt heildarskipulag fyrir 66.000 fermetra nýtt háskólasjúkrahús við Hringbraut er verulega minna kostnaðardæmi en fyrri verðlaunatillaga gerði ráð fyrir. Hafði Hulda Gunnlaugsdóttir, sem ráðin var nýr forstjóri Landspítalans í ágúst 2008, forgöngu um að endurskoða hugmyndir sem þá lágu fyrir og kynnti þær m.a. í Viðskiptablaðinu í maí 2009. Stærsti munurinn er að í stað þess að byggja nýtt húsnæði fyrir 70 milljarða króna eins og áformað var mun „aðeins” verða byggt fyrir 33 milljarða króna.

Gunnar Svavarsson, formaður verkefnisstjórnar um byggingu nýs Landspítala, segir að auk 33 milljarða nýbyggingar sem verður 66.000 fermetrar verði farið í endurgerð á eldra húsnæði fyrir um 11 milljarða króna. Þá er áætlað að verja um 7 milljörðum í tækjakaup. Samtals gerir þetta 51 milljarð króna. Auk þessa er gert ráð fyrir 10.000 fermetra nýbyggingu fyrir háskólastarfsemi.

„Það verður ódýrara húsnæði heldur en spítalabyggingin og gæti kostað um 3 til 4 milljarða. Það verður fjármagnaða af Happdrætti Háskóla Íslands. Það er því Háskólinn sjálfur sem tekur ákvörðun um hvort hann setji það verkefni af stað.”