Nýherji hf. og allir hlutahafar Tölvusmiðjunnar ehf. undirritaðu í dag samning um kaup Nýherja á 100% hlutafjár í Tölvusmiðjunni. Kaupin eru fjármögnuð með eigin fé Nýherja og er kaupverð trúnaðarmál að svo stöddu að því er kemur fram í tilkynningu Nýjerja til Kauphallarinnar.

Rekstur Tölvusmiðjunnar verður hluti af samstæðuuppgjöri Nýherja frá og með 1. október 2006. Nýherji hefur á undanförnum árum starfað að ýmsum verkefnum á Austurlandi, mikið í samvinnu við Tölvusmiðjuna. Kaupin á Tölvusmiðjunni eru liður í að styðja betur við þá starfsemi og skapa forsendur til að bjóða lausnir Nýherja til viðskiptavina á Austurlandi.

Tölvusmiðjan ehf. er öflugasta upplýsingatækniþjónustufyrirtæki Austurlands, en félagið var stofnað 1998 með sameiningu þriggja fyrirtækja. Tölvusmiðjan verður rekin sem sjálfstætt dótturfélag Nýherja. Öflugt teymi sérfræðinga starfar hjá Tölvusmiðjunni en framkvæmdastjóri þar er Jón Fjölnir Albertsson. Tölvusmiðjan hefur náð góðum árangri í sölu á tölvum og tæknibúnaði á Austurlandi og er með víðtæka þjónustu á sviði rekstrarþjónustu, hýsingar, notendaþjónustu og Microsoft þjónustu. Áætluð velta félagsins á árinu 2006 er 120 milljónir króna.

Í tilkynningunni segir að kaup Nýherja á Tölvusmiðjunni munu styrkja Tölvusmiðjuna enn frekar, þar sem viðskiptavinir félagsins hafa beinan aðgang að sérfræðingum Nýherja, auk þess sem lausnaframboð Tölvusmiðjunnar mun aukast. Saman munu Nýherji og Tölvusmiðjan veita núverandi og nýjum viðskiptavinum sínum betri og víðtækari þjónustu.