Í dag tóku nýir eigendur við rekstri TALs og Ingvar Garðarsson hefur verið ráðinn forstjóri félagsins. Nýir eigendur félagsins eru Auður I fagfjárfestasjóður slf. og Kjartan Örn Ólafsson sem keypti 5% hlut í TALi í dag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Auður Capital hefur sent frá sér.

Í fréttatilkynningunni segir að með aðkomu nýrra eigenda hefur fjárhagslegur grundvöllur félagsins verið styrktur.

Ingvar Garðarsson, nýráðinn forstjóri félagsins, er löggiltur endurskoðandi og hefur síðustu þrjú ár unnið við eigin rekstur. Hann starfaði á árunum 2003-2007 á Írlandi þar sem hann stýrði uppbyggingu verkefna á fjarskiptamarkaði á vegum Columbia Ventures Corp. og Magnet Networks.

Hermann Jónsson, fráfarandi forstjóri mun taka sæti í stjórn félagsins og vinna þannig áfram að uppbyggingu á þjónustu TALs í samstafi við nýja eigendur og stjórn.  Aðrir í stjórn eru Halla Tómasdóttir, stjórnarformaður, Arna Harðardóttir, Hjálmar Gíslason og Kjartan Örn Ólafsson. Varamaður í stjórn er Baldur Már Helgason.