Þrír nýir fulltrúar hafa bæst í hóp löglærðra starfsmanna Lex lögmannsstofu að undanförnu. Lex hefur því 29 löglærða í þjónustu sinni en starfsmenn stofunnar eru nú 40 alls, að því er segir í tilkynningu frá Lex.  Fulltrúarnir sem bæst hafa við að undanförnu eru Guðmundur Thorlacius, Ingvi Snær Einarsson og Sigríður Ásthildur Andersen.
Guðmundur Thorlacius hóf störf hjá Lex í júlí. Hann er fæddur 1970 og lauk kandídatsprófi frá lagadeild Háskóla Íslands 1996 og lauk framhaldsnámi frá Westfälische Wilhelms Universität í Münster í Þýskalandi 1997. Guðmundur var áður lögfræðingur á verðbréfa- og lánasviði Fjármálaeftirlitsins en starfaði áður hjá Fjármálaráðuneytinu og hjá embætti ríkisskattstjóra.
Ingvi Snær Einarsson hóf störf hjá Lex í ágúst. Hann er fæddur 1976 og lauk kandídatsprófi frá lagadeild Háskóla Íslands 2004 og hlaut málflutningsréttindi við héraðsdóm á þessu ári. Ingvi Snær starfaði áður sem lögfræðingur hjá Persónuvernd.
Sigríður Á. Andersen hóf störf hjá Lex í október. Hún er fædd 1971 og lauk kandídatsprófi frá lagadeild Háskóla Íslands 1999 og hlaut málflutningsréttindi við héraðsdóm árið 2001. Sigríður var lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands (áður Verslunarráðs) frá árinu 1999-2006. Sigríður er fyrsti varaþingmaður Sjálfstæðsflokksins í Reykjavíkurkjördæmi-norður.