Tinni Kári Jóhannesson og Ylfa Árnadóttir hafa bæst við eigendahóp ráðgjafafyrirtækisins Góðra Samskipta. Sem meðeigendur munu Tinni og Ylfa bera aukna ábyrgð á verkefnaöflun, vöruþróun og rekstri en um leið öðlast hlutdeild í afkomu fyrirtækisins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Tinni Kári Jóhannesson (34 ára) var ráðinn ráðningarstjóri Góðra samskipta í ágúst 2020. Áður starfaði Tinni sem ráðgjafi hjá Capacent á sviði ráðninga, vinnustaðamenningar og stefnumótunar. Hann hefur einnig starfað við ráðningar hjá Waterstone Human Capital og starfsráðgjöf hjá DeGroote School of Business í Kanada. Tinni er með meistaragráðu í mannauðsstjórnun frá HÍ og B.A.-gráðu í tómstunda- og félagsmálafræði frá sama skóla.

Ylfa Árnadóttir (37 ára) hefur starfað sem almannatengill hjá Góðum samskiptum frá árinu 2013 en starfaði áður sem blaðamaður á Morgunblaðinu og Mbl.is. Ylfa er með meistaragráðu í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands og B.A.-gráðu í íslensku frá sama skóla. Frá áramótum hefur hún einnig gegnt starfi rekstrarstjóra Góðra samskipta.

Góð samskipti starfa í dag á fjórum fagsviðum: Ráðgjöf, ráðningum, samskiptum og þjálfun en skrifstofur fyrirtækisins eru á Týsgötu 3 (við Óðinstorg) í Reykjavík.

Andrés Jónsson, stofnandi Góðra samskipta:

„Gott teymi er margfalt meira virði en sem nemur summu einstaklinganna. Tinni og Ylfa eru bæði lykilfólk hjá Góðum samskiptum og staðfesting þess með partner-nafnbót og stækkuðu hlutverki tryggir að við getum haldið áfram að þróast. Mig óraði ekki fyrir að þetta myndi ganga svona vel þegar við stækkuðum fyrirtækið fyrir ári síðan og opnuðum ráðningardeildina, sem Tinni hefur leitt.

Tímasetningin reyndist góð þar sem það eru að verða miklar breytingar á sviði ráðninga - bæði með aukinni fagmennsku og þekkingu innan vinnustaða en líka með fjölgun sérhæfðari ráðgjafa og ráðningaraðila. Þá er samsetning og skipulag vinnustaða að þróast hratt með hjálp nýrrar tækni, samskipta og þekkingar á því hvernig við fáum það besta út úr fólki. Auk óvæntrar uppsveiflu í spurn eftir vinnuafli, í kjölfarið á Covid, þá eru fyrirtæki að fjárfesta vel í stefnumótun og þjálfun starfsfólks.

Góð samskipti hafa staðsett sig sem samstarfsaðili á þessum þremur lykilsviðum í starfsemi fyrirtækja og stofnana; samskipta, stefnu og starfsfólks og við finnum mikla þörf fyrir slíka ráðgjöf.“