Stjórn breska bankans Barclays hefur ráðið Antony Jenkins í stöðu bankastjóra og mun hann setjast í sæti Bob Diamond sem sagði af sér eftir ásakanir um markaðsmisnotkun á millibankavöxtum í sumar. Þá er jafnframt búið að finna nýjan stjórnarformann bankans í stað Marcus Agius, sem sagði af sér vegna misnotkunarinnar. Bresk og bandarísk fjármálayfirvöld sektuðu Barclays um 290 milljónir punda, um 60 milljarða króna, vegna brotsins þegar það uppgötvaðist í júlí.

Vaxtabraskið er fjarri því það eina sem plagar Barclays en bresk fjármálayfirvöld lýstu því yfir fyrir skömmu að þau ætli að rannsaka hvort eitthvað gruggugt hafi verið við viðskipti bankans við félagið Qatar Holdings árið 2008.

Jenkins hefur unnið hjá Barclays í sex ár og setið í framkvæmdastjórn bankans síðastliðin þrjú ár. Hann hefur unnið við að blása lífi í greiðslukortadeild bankans en mun hafa minni reynslu af eignastýringu og fjárfestingarbankastarfsemi.

Fram kemur í erlendum fjölmiðlum að Jenkin fái 1,1 milljón punda í laun á ári, rúmar 213 milljónir íslenskra króna. Við það bætast 2,75 milljónir punda kaupauki og bónusgreiðslur sem geta í mesta lagi jafnast á við fjórföld árslaun hans.