Eftir að Wow air birti tilkynningu í síðustu viku um að félagið hefði keypt tvær nýjar flugvélar hafa skapast miklar umræður meðal flugáhugamanna um kaupin. Þar hefur því meðal annars verið haldið fram að vélarnar séu í raun ekki nýjar, en Skúli Mogensen, forstjóri Wow air, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku að vélarnar væru „splunkunýjar“.

Hefur því verið haldið fram að vélarnar hafi fyrst verið í notkun rússnesks flugfélags, en slíkar hugrenningar má til dæmis sjá í lokuðum hópi „Flugnörda“ á Fasbók.

Viðskiptablaðið hafði samband við Skúla og spurði hann hvort nýju vélarnar væru í raun notaðar. „Nei, þær áttu að fara til Rússlands en þær voru aldrei afhentar því flugfélagi. Þær fóru aldrei til Rússlands og hafa aldrei verið flognar af neinum. Wow air mun fljúga þessum vélum í fyrsta sinn,“ segir Skúli og ítrekar vilja sinn til þess að taka af allan vafa um málið.

„Þetta er í fyrsta sinn í tuttugu ár sem splunkunýjar vélar koma til landsins og það ætti að vera fagnaðarefni. Þær koma beint úr kassanum, ef svo má að orði komast,“ segir Skúli en bætir við: „Það sem mér finnst áhugavert öllu frekar er hvernig verið er að reyna að tortryggja eitthvað sem ætti að vera fagnaðarefni meðal íslenskra flugáhugamanna.“