Evrópubúar ættu ekki að gera ráð fyrir því að geta náð í nýjasta smáforrit Facebook, sem kallast „Moments“, á næstunni. Samkvæmt The Register þorir fyrirtækið ekki að gefa út forritið í Evrópu vegna ótta við reglugerðir í álfunni.

Moments kom út fyrr í þessum mánuði. Forritið rennir yfir myndirnar í snjallsíma notenda og leitar að myndum af vinum þeirra með hjálp háþróaðs andlitsgreiningarhugbúnaðar Facebook. Síðan getur notandi sent myndirnar til vinanna sem andslitsgreiningin þefar uppi.

Hugmyndin er snjöll og einfaldar deilingu á stórum fjölda á myndum. Í leiðinni sankar Facebook hins vegar að sér enn meiri upplýsingum um notendur sína. Í augnablikinu er þetta smáforrit þó ekki fáanlegt í Evrópu og allt bendir til þess að það muni ekki breytast í brá.

Ástæðan er áðurnefnd andlitsgreiningartækni Facebook. Þessi tækni hefur þróast gríðarlega undanfarin ár án þess þó að Evrópubúar hafi fengið að njóta góðs af. Fyrirtækið fjarlægði nefnilega andlitsgreiningarmöguleikann í Evrópu eftir pressu frá eftirlitsaðilum, enda er friðhelgi einkalífsins talsvert betur varin þeim megin við Atlantshafið.

Á meðan Bandaríkjamenn fá að mestu leiti réttar ábendingar um hvaða fólk þeir ættu að merkja við í myndum sem þeir hlaða upp á Facebook, þá fá Evrópubúar einungis sjálfkrafa ábendingar tengdar fólki sem þeir hafa verið í samskiptum við nýlega. Á meðan andlitsgreiningin er ekki leyfileg er Moments afskaplega tilgangslaust.