*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 7. maí 2010 13:20

Nýlegir Ford Expedition og Mitsubishi Pajero jeppar notaðir til að ferja Hreiðar Má og Magnús

Ritstjórn

Sem kunnugt er voru þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrv. forstjóri Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrv. forstjóri Kaupþings í Lúxemborg úrskurðaðir í gæsluvarðhald fyrr í dag.

Þeir voru báðir handteknir eftir skýrslutöku í gær.

Þeir Hreiðar Már og Magnús voru rétt fyrir hádegi leiddir fyrir dómara en þó í sitt hvoru lagi. Um kl. 11.30 var Magnús fluttur í fylgd lögreglumanna á nýlegum Mitsubishi Pajero jeppa sem sést á myndinni hér til hliðar.

Um korteri síðar kom Hreiðar Már, einnig í fylgd lögreglumanna, á nýlegum Ford Expedition jeppa sem sést á mynd nr. 2.

Rúmum hálftíma síðar voru þeir báðir fluttir út úr Héraðsdóm Reykjavíkur, og enn í lögreglufylgd. Það voru fyrstu merki þess að dómari hefði orðið við beiðni sérstaks saksóknara um að úrskurða þá í gæsluvarðhald.

Sem fyrr voru þeir þó fluttir í sitthvoru lagi, Magnús í fylgd lögreglumanna í Pajero jeppann og Hreiðar Már í Expedition jeppann. Þeir höfðu báðir gist fangageymslur lögreglunnar  á höfuðborgarsvæðinu við Hverfisgötu. Hreiðar Már hafði þó mætt til skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara í morgun og var fluttur þaðan beint í héraðsdóm.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins mun Hreiðar Már sæta gæsluvarðhalds á Litla hrauni en Magnús í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg.