Icelandic Water Holdings ehf. sem framleiðir Icelandic Glacial vatnið, hefur ráðið John K. Sheppard sem forstjóra félagsins og hefur hann störf 12. mars næstkomandi.

Jón Ólafsson, annar af tveimur stofnendum fyrirtækisins og núverandi forstjóri, mun sitja áfram sem stjórnarformaður.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandic Water Holdings í dag.

Þar kemur fram að Sheppard kemur til Icelandic Water Holdings frá fjárfestingafélaginu Emigrant Capital þar sem hann var meðeigandi og yfir eignarsafni fyrirtækisins á matvæla- og drykkjarvöruframleiðendum.

Þá var hann forstjóri Cott Corporation, sem er einn af stærstu gosdrykkjaframleiðendum heims sem framleiðir eigin vörumerki. Hjá Cott starfa um 3.500 manns í 21 verksmiðju víðsvegar um heiminn og framleiðir fyrirtækið meðal annars RC Cola.

Sheppard var áður í 19 ár hjá Coca Cola þar sem hann var meðal annars forstjóri Evrópudeildar fyrirtækisins og yfirmaður alþjóðasviðs Coca Cola International.

„Á síðastliðnum þremur árum höfum við náð því markmiði okkar að koma Icelandic Glacial á Bandríkjamarkað og tryggja vatninu dreifingu um öll Bandaríkin,“ segir Jón Ólafsson, stjórnarformaður Icelandic Water Holdings í tilkynningunni.

„Nú þegar það er að baki hefst nýr kafli hjá fyrirtækinu og við erum mjög ánægð með það að hafa tryggt okkur mann með jafn mikla alþjóðlega reynslu á drykkjarvörumarkaði líkt og Sheppard.“