Sigrún Guðmundsdóttir hefur tekið við sem framkvæmdastjóri hjá Mjöll Frigg, dótturfélagi Olís. Sigrún hefur áralanga reynslu af gæðamálum, verkefnastjórnun og störfum á rannsóknarstofum og hefur nú þegar hafið störf hjá fyrirtækinu.

Sigrún kemur til Mjallar Friggjar frá Stjörnugrís þar sem hún starfaði sem gæðastjóri. Fyrir það var hún meðal annars gæða-, umhverfis- og öryggisstjóri hjá Gray Line Iceland, yfirmaður rannsóknarstofu hjá Ölgerðinni Egill Skallagrímsson og gæðastjóri og forstöðumaður rannsóknarstofu hjá Icelandic Water Holdings.

Sigrún er með Ph.D.-gráðu í örverufræði frá Háskóla Íslands þar sem hún sérhæfði sig meðal annars í rannsóknum á listeríu í matvælavinnslum á Íslandi. Hún er einnig með M.Sc.-gráðu í líftækni frá Heriott-Watt University í Edinborg og B.Sc.-gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands.

Sigrún er gift Guðmundi Karli Guðjónssyni, forstöðumanni dreifingar og flutninga hjá Íslandspósti og eiga þau fjögur börn.