Reed Hastings, forstjóri streymisveitunnar Netflix sagði í viðtali við Variety á föstudag að allt annar heimur myndi heimur myndi blasa við fyrirtækinu í nóvember þegar Disney+ og Apple TV+ verða settar á laggirnar auk þess sem von er á streymisveitum frá bæði NBC og HBO. Urðu ummæli Hastings til þess að gengi hlutabréfa Netflix lækkuðu um 5,5% og er nú á svipuðum slóðum og í byrjun árs..

„Samkeppnin á eftir að verða erfið þar sem áhorfendur munu hafa mjög mikið til að velja úr,“ sagði Hastings. Að hans sögn mun fyrirtækið halda áfram að einbeita sér að framleiðslu á eigin efni þrátt fyrir að samkeppni á þeim vettvangi sé einnig mikil. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í lok júlí voru tölur um vöxt áskrifenda á öðrum ársfjórðungi langt undir væntingum markaðsaðila og fyrirtækisins sjálfs þó stjórnendur töldu þó ekki að væntanlegri samkeppni væri um að kenna.

Vandræði Netflix snúa einnig að því að því að streymisveitan mun á næstu misserum missa tvo af sínum vinsælustu þáttum, Friends og The Office. Þá hafa rannsóknir einnig sýnt að þegar neytendur standa frammi fyrir miklu magni af efni hneigjast þeir til að horfa á það efni sem þeir þekkja best eins og fjallað var um í lok júlí .

Gengi bréfa Netflix hefur nú lækkað um 29% frá því það náði árshámarki sínu í byrjun júlí og hefur auk þess lækkað um rúmlega 9% á síðustu viku.