Bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Sequoia Capital leiðir nýja fjárfestingu upp á 2 milljónir dala, jafnvirði 240 milljóna íslenskra króna, í íslenska leikjaframleiðandanum Plain Vanilla. Sjóðurinn hefur áður fjárfest í fyrirtækjum á borð við Google og Instagram.

Í tilkynningunni segir að einn af eigendum Sequoia var einn þeirra sem tók þátt í að spila QuizUp spurningaleikinn á prófunarstigi og heillaðist hann svo af leiknum að hann heimtaði að fá að fjárfesta áður en að leikurinn væri gefinn út. Aðeins tók um 3-4 daga að ganga frá fjárfestingunni.

Í viðtali við Viðskiptablaðið í sumar sagði Þorsteinn Baldur Friðriksson frá fundi sínum með manni frá Sequoia, sem Davíð Helgason, stofnandi Unity Technologies hafði komið á með bellibrögðum. Þorsteini tókst ekki að fá Sequoia til að fjárfesta í Plain Vanilla þá, en þeim hefur greinilega snúist hugur núna.

Sequoia var stofnað árið 1972 og sérhæfir sig í því að finna áhugaverð tæknifyrirtæki sem eru á frumstigi. Meðal þeirra fyrirtækja þar sem Sequoia Capital var á meðal fyrstu fjárfestanna eru Apple, Google, Oracle, Cisco, Dropbox, Instagram, PayPal, Yahoo, Linkedin, Youtube, Airbnb, Kayak og Electronic Arts. Sequoia Capital hefur skrifstofur sínar í Sílikondal í Kaliforníu og fjárfestir mjög sjaldan utan Bandaríkjanna.

Alls hafa áhættufjárfestar lagt 5,6 milljónir dala í Plain Vanilla en á meðal annarra fjárfesta í fyrirtækinu eru Davíð Helgason, Greycroft Partners (sem hafa m.a. fjárfest í Huffington Post og 9GAG), Tencent og CrunchFund (sem hefur m.a. fjárfest í Tumblr). Ólafur Jóhann Ólafsson framkvæmdastjóri hjá TimeWarner er einnig á meðal hluthafa í Plain Vanilla.

Í tilkynningunni segir að fjárfestingin nú verði nýtt til að stækka fyrirtækið og ráða fleiri starfsmenn. Plain Vanilla er með höfuðstöðvar sínar á Laugavegi 26 en 20 starfsmenn vinna hjá fyrirtækinu. Fyrirtækið er einnig með starfsstöðvar í New York og San Francisco.