Ósk Heiða Sveinsdóttir tók við stöðu markaðsstjóra Krónunnar og Kjarval um áramótin og hefur síðan þá lagt mikla áherslu á að reyna að eiga samtal við neytendur verslunarinnar með það fyrir augum að Krónan geti uppfyllt kröfu flestra. Hún er með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði frá Há­ skóla Íslands og hafði áður starfað sem markaðsstjóri hjá Íslandshótelum og þar á undan starfaði hún hjá Advania og Hugax. „Smávörubransinn“ eins og hún kallar hann var því ný áskorun.

Hversvegna ákvaðst þú að skella þér í smásölubransann?

„Þegar mér bauðst tækifæri til að koma hingað leist mér bara svo vel á fyrirtækið og kúltúrinn að ég gat ekki hafnað því. Það eru gríðarleg tækifæri falin á smásölumarkaðnum og á Krónan heilmikið inni. Svo fannst mér jafnframt mjög skemmtileg áskorun að fara að vinna með vörumerki sem allir hafa skoðun á enda er fátt mannlegra í lífinu en að fara út í búð og kaupa sér í matinn. Smávörubransinn er svo hraður og skemmtilegur, það er nýr leikur á hverjum degi. Það er alltaf eitthvað nýtt að gerast og hann stoppar aldrei þannig að þetta er ofsalega áhugavert og krefjandi starf.“

Hafa verið í mikilli vinnu með vörumerkið

Fylgdu þér breyttar áherslur þegar þú tókst við nýju starfi?

„Já, það má segja það en undanfarið höfum við unnið að því að breyta áherslum Krónunnar í markaðssetningu. Við viljum einfalda hlutina og höfum því einbeitt okkur að því að koma skilaboðunum okkar betur á framfæri. Ég hef sérstaklega mikinn áhuga á stafrænni markaðssetningu og við höfum því verið að beina sjónum okkar frekar að þeim sviðum. Sem dæmi má nefna herferðina Snarlið sem við fórum í um daginn, þar sem við bjuggum til örmyndbönd, sniðugar uppskriftir og fræðslu. Markmiðið með henni var að vekja áhuga hjá krökkum á að læra að elda sjálfir holla og fljótlega rétti eftir skóla. Það þarf ekki að vera flókið að framreiða stórkostlegt snarl úr því sem til er í skápunum heima hverju sinni. Hér var um að ræða herferð sem var fyrst og fremst kynnt á samfélagsmiðlum. Við réðumst í breytingar á öllu okkar mengi og höfum verið í mikilli vinnu varðandi vörumerkið, allt frá litum, tón Krónunnar og yfir í auglýsingar og skilaboð. Við höfum unnið mikið starf það sem er af þessu ári og erum rétt að byrja en við höfðum náttúrlega frá­ bæran grunn til að byggja á því þetta er vörumerki sem hefur gengið vel og fólk þekkir.“

Viðtalið við Ósk má sjá í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi undir Tölublöð.