*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 4. nóvember 2015 12:05

Nýr spítali verði ekki byggður við Hringbraut

Rannsóknarstofnun atvinnulífsins segir rétt að endurskoða staðsetningu nýs Landsspítala.

Ritstjórn
Haraldur Jónasson

Rannsóknarstofnun atvinnulífsins við Háskólann á Bifröst leggur til að fyrirhuguð bygging nýs Landspítala við Hringbraut verði endurskoðuð og rekstrarformi á hluta starfsemi spítalans verði breytt. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu kynnt var í morgun.

Í skýrslunni kemur fram að hægt sé að byggja nýjan spítala á betri stað en við Hringbraut. Þá segir að hagkvæmara og skynsamlegra út frá skipulagsmálum að byggja nær miðju höfuðborgarsvæðisins. Þar megi byggja sambærileg sjúkrahús og verið er að byggja á Norðurlöndunum um þessar mundir en þau eru hærri en hægt er að byggja við Hringbraut.

Spítali við Hringbraut yrði í 17 byggingum

Á nýjum stað yrði hægt að byggja nútímalegt sjúkrahús frá grunni sem tekur ekki eins mikið pláss eins og við Hringbraut. Fyrirhugað nýr spírali við Hringbraut á að vera í 17 byggingum sem tengdar verða saman með göngum.  Við Hringbraut þarf ennfremur að endurbyggja stóran hluta af gömlu og illa förnu húsnæði og segir í skýrslunni að kostnaður við þær framkvæmdir sé að öllum líkindum stórlega vanmetinn.

Þá segir að forsendur fyrir staðsetningu á nýjum spítala við Hringbraut séu ekki lengur fyrir hendi þar sem ekki er gert ráð fyrir nýjum umferðarmannvirkjum líkt og var í upphafi þegar ákvörðun um byggingu nýs spítala við Hringbraut var tekin. Kostnaður við þau hefur verið metinn um 20 milljarðar króna. Með því að byggja á nýjum stað losnar að auki eitt verðmætasta byggingarsvæði landsins sem býður upp á mikla þróunarmöguleika fyrir miðborgina.

Stikkorð: Landspítali