Tævanska fyrirtækið HTC, sem þekktast er fyrir að framleiða snjallsíma, mun síðar á þessu ári hefja sölu á sýndarveruleikabúnaði sem fengið hefur nafnið HTC Vive. Er um svipaðan búnað að ræða og Oculus Rift, sem er nú í eigu Facebook, og Morpheus sýndarveruleikabúnað Sony. HTC er að þróa Vive í samstarfi við rölvuleikjaframleiðandann Valve.

Hugbúnaðaframleiðendur munu fá eintök afhent á næstu dögum, en eins og áður segir verður varan boðin almenningi til kaups síðar á árinu, að því er segir í frétt BBC.

Töluverð gróska er í þróun sýndarveruleikabúnaðar og hugbúnaðar fyrir hann, en CCP er að þróa tölvuleikinn Valkyrie fyrir Oculus Rift búnaðinn.

Kaupráðstefnan Mobile World Congress hefst í Barcelona á morgun, en HTC kynnti búnaðinn á blaðamannafundi í dag. Valve mun einnig vera með kynningu á miðvikudaginn og er búist við því að þar verði hægt að sjá tölvuleik, sem hannaður er fyrir Vive búnaðinn.