Anna Kristín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri nýsköpunar og þróunar hjá Marel, segir árangur fyrirtækisins byggja á fólkinu, hugviti þess og góðu sambandi við viðskiptavini um allan heim. Hátæknilausnir, hugbúnaður og sjálfbærni sé það sameiginlega í öllum lausnum sem félagið þrói og bjóði til viðskiptavina.

Anna Kristín var ráðin framkvæmdastjóri nýsköpunar og þróunar í mars á síðasta ári en hún hefur starfað hjá Marel frá árinu 2015. Það er óhætt að segja að Anna Kristín hafi gengið inn í hlutverkið á miklum umbrotatímum en hún segir félagið hafa verið vel í stakk búið til að takast á við hið óvænta.

„Við erum staðsett í 30 löndum og erum þannig nálægt viðskiptavinum okkar í yfir 140 löndum um allan heim, sem skiptir ekki síst máli þegar það koma upp aðstæður líkt og við upplifðum í fyrra og á þessu ári. Við gátum verið nálægt viðskiptavinum okkar, farið inn í framleiðsluna hjá þeim og aðstoðað, sem er nauðsynlegt þegar kemur að matvælum þar sem stöðvun á framleiðslu getur leitt af sér alvarlegar aðstæður. Undanfarin ár höfum við jafnframt verið að þróa stafrænar og sjálfvirkar lausnir til þess að geta verið sífellt nær viðskiptavinum okkar en þegar faraldurinn skall á þurftum við af fullu afli að nýta þessar lausnir til hins ítrasta. Eftirspurn matvælaframleiðenda eftir sjálfvirkum lausnum hefur sömuleiðis stóraukist í heimsfaraldri en þar eru einnig að baki auknar kröfur um fjölbreytt vöruúrval í matarbúðum, bætt matvælaöryggi og óslitin framleiðsla," segir Anna Kristín og bætir við að aðstæðurnar hafi þrátt fyrir allt fært fólk nær hvert öðru sem teymi.

Metár í kynningu nýrra lausna

Það að stór hluti starfsfólks hafi þurft að vinna heima kom ekki að sök. „Við höfum lengi verið fjölskylduvænn og sveigjanlegur vinnustaður, þannig að við vorum vel í stakk búin til þess að halda takti þótt fólk væri heima hjá sér. Við í vöruþróun vinnum eftir ströngum tímalínum gagnvart viðskiptavinum okkar, en það var ekkert mál. Fólk hannaði jafnvel heilu framleiðslulínurnar heima hjá sér og skilaði þeim á réttum tíma. Við gáfum líka í ef eitthvað er, því við áttum metár í að kynna nýjar lausnir inn á markaðinn en við kynntum yfir 30 nýjar lausnir úr vöruþróun á síðasta ári þar sem sjálfbærni er leiðarstefnið sem og mikil áhersla á hugbúnað."

Anna Kristín segir nýsköpun djúpt samofna menningu Marel og að árangur fyrirtækisins byggi á fólkinu og hugviti þess.

„Nýsköpun felst í fólkinu og hugviti þess, hún felst í teymunum og afurðum teymavinnunnar. Árangurinn byggir á því að hafa rétta fólkið, með rétta hugarfarið, og fjölbreytta  menntun og bakgrunn sem mynda teymin sem hafa verið að skila þessum magnaða árangri. Ef við lítum yfir árið 2020 og það sem af er þessu þá blasir það við að það er ekkert sem stoppar öflugt teymi með skýra sýn og góða tækni í höndunum," segir Anna Kristín að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, fylgiriti Viðskiptablaðsins, sem unnið var í samstarfi við Kelduna. Blaðið er opið öllum og er hægt að nálgast pdf-útgáfu hér .