Fyrstu 130 daga ársins 2008 hafa 8.513 ökutæki verið nýskráð miðað við 8.563 ökutæki eftir jafn marga skráningardaga á síðasta ári og fækkar því nýskráðum ökutækjum um 0,6% milli ára.

Þetta kemur fram á vef Umferðarstofu.

Þess má geta að fyrstu 53 daga ársins hafði nýskráning ökutækja aukist um 46,8% miðað við sama tímabil í fyrra og má því sjá að mikill viðsnúningur hefur átt sér stað hvað þetta varðar.

Eigendaskipti ökutækja eru færri það sem af er árinu en á sama tímabili í fyrra.

Skráð eigendaskipti fyrstu 130 daga ársins voru 32.892 en voru 35.189 á sama tímabili í fyrra.

Í frétt Umferðarstofu segir að þetta þýði að það hefur orðið -6,5% samdráttur í eigendaskiptum miðað við sama tímabil í fyrra en fyrstu 53 daga ársins var 2,6 % aukning í eigendaskiptum miðað við sama tíma í fyrra.