Fyrirtækið DataMarket í Reykjavík stefnir að því að koma upp markaði fyrir kaup og sölu á gögnum. Þar er einkum átt við tölfræði og töflugögn hverskonar, eða formuð gögn (e. structured data). Stofnandi og frumkvöðull að fyrirtækinu er Hjálmar Gíslason sem hefur komið að stofnun margra sprotafyrirtækja.

Í samtali við Hjálmar í Viðskiptablaðinu kemur fram að í nú er unnið að fyrsta áfanga félagsins - "þjónustufyrirtækið DataMarket" - sem býður fyrirtækjum og stofnunum upp á þjónustu við að útvega gögn sem þau vantar á því formi sem þeim hentar. Þetta eru þarfir sem meira og minna öll fyrirtæki hafa, en átta sig kannski ekki á því hversu illa þær þarfir eru uppfylltar í dag.

Meðal þeirra dæma sem liggja beinast við er t.d. áætlanagerð fyrirtækja. Hjálmar segir að við slíka áætlanagerð sé nauðsynlegt að styðjast við allskyns tölulegar fosendur, allt frá hagvísum og hagspám (verðbólga, gengi gjaldmiðla, einkaneysla o.s.frv.) til markaðsrannsókna á starfssviði fyrirtækisins og tengdra upplýsinga frá fyrirtækjum í svipaðri starfsemi erlendis.

"Margir kannast sjálfsagt við handavinnuna sem felst í því að finna svona gögn, safna þeim saman og koma á form sem hægt er að vinna með t.d. í töflureikni eða inni í fjárhagskerfum. Margir gefast jafnvel upp á leitinni og klára vinnuna, vitandi að áætlanagerðin yrði betri ef viðkomandi gögn hefðu fundist og verið notuð."

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu