Í Lögbirtingablaðinu hinn 22.nóvember sl. er að finna tilkynningu frá Ríkisskattstjóra um stofnun nýs hlutafélags. Um er að ræða Sjóböð ehf. sem stofnað var 19. október af Norðursiglingu á Húsavík,BASALT arkitektum í Reykjavík, Sögu fjárfestingarbanka, Orkuveitu Húsavíkur og fjárfestingarsjóðnum Tækifæri sem Íslensk verðbréf á Akureyri reka. Tilgangur félagsins er m.a. sagður bygging og rekstur sjóbaða á Húsavíkurhöfða.

„Viðskiptahugmyndin gengur út á uppbyggingu á heitum sjóböðum og rekstur á vandaðri heilsu- og ferðaþjónustu fyrir innlenda og erlenda gesti svæðisins. Áætlað er að staðsetja baðlónið á Húsavíkurhöfða þar sem útsýni er gott yfir hafið og Kinnafjöllin. Nafnið sjóböð er dregið af því að böðin verða sölt þar sem markmiðið er að nýta salt heitt vatn úr borholum á höfðanum og vegna staðsetningar við sjóinn,“ segir Björn Gíslason, sjóðsstjóri hjá Íslenskum verðbréfum en hann er stjórnarformaður Sjóbaða ehf.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.

Húsavík
Húsavík
© Hörður Kristjánsson (VB MYND/ HKR)