Auglýst hefur verið nýtt deiliskipulag fyrir Klafastaðahluta Grundartangans þar sem til verða yfir 100 iðnaðarlóðir sem að sögn Gísla Gíslasonar, framkvæmdastjóra Faxaflóahafna, verður spennandi kostur fyrir alls kyns atvinnustarfsemi.

Ætlunin er að stækka athafnasvæðið til vesturs og nýta þannig hafnarsvæðið betur. Gísli sagði mikilvægt að hafa lokið skipulagsvinnu til að geta boðið nýjum aðilum upp á lóðir.

Að sögn Gísla hafa nokkrir áhugasamir aðilar verið að spyrjast fyrir um lóðir og er þar m.a. fyrirspurn Elkem Solar um lóð undir afar spennandi framleiðslu á kísilflögum. Félagið er nú að skoða 3 til 4 staði fyrir slíka verksmiðju og sagði Gísli að spennandi væri að sjá hvað kæmi út úr því. Sömuleiðis er í gangi viljayfirlýsing gangvart Greenstore sem hefur hug á að setja upp netþjónabú. Sú yfirlýsing gildir út júní á þessu ári

Að sögn Gísla gekk reksturinn prýðilega á síðasta ári og samdrátturinn hefði komið seinna en gert var ráð fyrir. Það sem hefur helst áhrif á rekstur hafnanna er eftirspurn eftir lóðum og innflutningsmagn.