*

þriðjudagur, 27. júlí 2021
Innlent 10. nóvember 2004 17:07

Nýtt félag selur afurðir undir merkjum Iceland Seafood

Ritstjórn

Til að auka skilvirkni í starfsemi SÍF-samstæðunnar hefur hefðbundin sölu- og markaðsstarfsemi með sjávarafurðir verið skilin frá rekstri fullvinnslustarfsemi fyrirtækisins og færð í sérstakt dótturfélag. Sölustarfsemi SÍF hf. fer framvegis fram undir merkjum Iceland Seafood um allan heim. Eftir sem áður leggur félagið ríka áherslu á að vera öflugur söluaðili ferskra, frystra og saltaðra sjávarafurða frá íslenskum framleiðendum í gegnum markaðsstarf sitt á Íslandi, í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Litháen, Póllandi, Grikklandi, Bandaríkjunum Kanada, á Ítalíu og Spáni segir í tilkynningu þess.

Framkvæmdastjóri Iceland Seafood er Örn Viðar Skúlason. Hann segir að með því að draga verslun með sjávarafurðir saman í eina heild skapist tækifæri til að efla sérstaklega þann þátt í starfseminni og sinna betur þörfum innlendra og erlendra viðskiptavina um fjölbreytt úrval afurða, víðtækt sölukerfi, örugga afhendingu, lágan sölukostnað og margþætta markaðsþekkingu.

Sérstök áhersla verður lögð á að sinna þörfum íslenskra framleiðenda á heildstæðan hátt við sölu afurða og styrkja sölukerfið um leið og unnið verður markvisst að því að einfalda vinnuferla og tryggja hagkvæmni í rekstri.

Iceland Seafood leggur megináherslu á hefðbundið sölustarf með sjávarafurðir sem seldar eru til frekari vinnslu, til heildsala, dreifingaraðila, veitingahúsa og aðila sem selja vöruna áfram undir eigin merkjum.

Nafnið Iceland Seafood á sér sterkar rætur í markaðssetningu fyrsta flokks sjávarafurða á erlendum mörkuðum og er vel þekkt meðal þúsunda viðskiptavina um allan heim.