Fyrirhugað er að setja nýjan íslenskan bjór á markað í lok þessa mánaðar. Bjórinn heitir Gullfoss og er framleiddur af nýlega stofnuðu brugghúsi sem heitir Ölgerð Reykjavíkur.

Heimir Hermannsson, framkvæmdastjóri brugghússins, segir hugmyndina vera að nota eingöngu besta fáanlega hráefnið og búa til eigin uppskriftir eftir leiðbeiningum frá bestu bruggmeisturum sem vildu vera í samstarfi við fyrirtækið.

„Fyrsti bjórinn okkar, Gullfoss, er í þeirri hefð sem Íslendingar elska, þ.e. ljós lagerbjór. Hann er bruggaður úr þremur mismunandi tegundum af malti og tveimur tegundum af humli. Hann er byggður á skandínavískri lagerhefð sem á rætur að rekja til þýsku hefðarinnar.”

Bruggunin er hafin og gerir hann ráð fyrir að bjórinn verði kominn í sölu hjá Vínbúðinni í lok júlí.

Bruggmeistari Ölgerðar Reykjavíkur er Daninn Anders Kissmeyer. Hann var gæðastjóri hjá danska bjórrisanum Carlsberg í tæp 20 ár og á vinsælasta bjórpöbbinn í Kaupmannahöfn í dag.

„Hann býr til allar uppskriftir og velur hráefnið fyrir okkur. Hann hefur upp á réttum birgjum og réttu hráefni,” segir Heimir.

Ólíkt öðrum smærri brugghúsum hérlendis á Ölgerð Reykjavíkur ekki eigin verksmiðju heldur framleiðir bjórinn í Bruggsmiðjunni Árskógssandi. Heimir segir það alltaf hafa verið á stefnuskránni að fara þessi leið, frekar en að reisa eigin verksmiðju.

Eigendur fyrirtækisins hafi skoðað ýmsar möguleika í stöðunni en á endanum tekið ákvörðun um að ganga til samstarfs við Bruggsmiðjuna. Hún sé staðsett á skemmtilegu svæði og hafi á að skipa hæfu starfsfólki.

„Það hefur gengið svo vel hjá þeim að þau þurfa að stækka við sig til að geta tekið okkur inn. Brugghús eru þess eðlis að mesta fjárfestingin er í upphafi rekstrar og það kostar hlutfallslega minna að stækka framleiðslueininguna sem fyrir er. Við höfðum skoðað fjölda verksmiðja erlendis og uppsetningin hjá Bruggsmiðjunni er til mikilla fyrirmyndar.”

Að sögn Heimis er mikill vöxtur hjá litlum brugghúsum í Bandaríkjunum og Evrópu í dag.

„Á meðan vöxturinn er um 2% hjá stórum aðilum í Bandaríkjunum er hann nálægt 50% hjá litlu brugghúsunum,” segir Heimir að lokum.

Á íslenska bjórmarkaðnum eru í dag fyrir tveir stórir framleiðendur og innflytjendur á bjór, Vífilfell og Ölgerðin. Minni brugghúsin eru Bruggsmiðjan á Árskógsströnd, sem framleiðir og selur Kalda, og Ölvisholt Brugghús við Selfoss, sem framleiðir og selur Skjálfta.

Um mitt sumar mun brugghúsið Mjöður á Stykkishólmi setja á markað Jökul Bjór.