Nú í byrjun janúar mun nýtt og stærra skip leggjast að höfn í Kópavogi. Atlantsskip tekur í notkun skipið Kársnes. Það mun fylgja öðru skipi fyrirtækisins, Arnarnesi, í Evrópusiglingum fyrirtækisins. Kársnes kemur í stað Algirdas. Það er mun stærra en fyrra skip eða 370 TEU á móti 220 TEU í flutningsgetu. Það er í takt við þá aukningu sem hefur verið í flutningum fyrirtækisins á undanförnum mánuðum segir í tilkynningu frá félaginu.

Aðspurður segir Gunnar Bachmann, framkvæmdastjóri Atlantsskips, að ákveðið hefði verið að taka Kársnes í notkun vegna þeirrar aukningar sem orðið hefur á starfsemi fyrirtækisins. Auk þess væri skipið töluvert kraftmeira til að standa af sér íslenska veturinn og þá fjölgun viðkomustaða sem félagið hefur verið að hefja siglingar til undanfarna mánuði. Atlantsskip verða með vikulegar ferðir til og frá Færeyjum, Englandi, Hollandi og Danmörku frá og með 15. janúar.