Í sumar tók gildi hjá Skýrr hf nýtt fyrirkomulag á skipulagi og stjórnun fyrirtækisins, að því er segir í frétt frá fyrirtækinu. Samhliða þessu voru gerðar umtalsverðar breytingar á stjórnendateymi fyrirtækisins. Markmið nýs skipurits og breytinga er að styrkja þjónustu Skýrr, efla samhæfingu í vöruúrvali og auka viðbragðsflýti á markaði. Samkvæmt nýju skipulagi er gert ráð fyrir fjórum tekjusviðum og sjö stoðeiningum, ásamt forstjóra og stjórn.

Forstjóri, framkvæmdastjórar og forstöðumenn fyrirtækisins mynda framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Tekjusviðin innihalda kjarnastarfsemi Skýrr á sviði upplýsingatækni. Stoðsviðum er ætlað að vera stefnumarkandi hverju á sínu sviði og veita tekjusviðum og öðrum stoðsviðum sérfræðiaðstoð sína. Hjá Skýrr starfa í dag tæplega 210 manns.

Forstjóri Skýrr er Þórólfur Árnason.

Nýr framkvæmdastjóri Hugbúnaðarlausna Skýrr er Sigrún Ámundadóttir. Hugbúnaðarlausnir sinna öðrum stöðluðum hugbúnaðarlausnum, til dæmis Business Objects, ásamt því að sjá um sérsmíði hugbúnaðar fyrir viðskiptavini.

Framkvæmdastjóri Rekstrarlausna Skýrr er Þorvaldur Egill Sigurðsson. Rekstrarlausnir sinna meðal annars hýsingar- og rekstrarþjónustu og veita margvíslega upplýsingavinnslu og útvistunarlausnir.

Nýr framkvæmdastjóri Viðskiptalausna Skýrr er Eiríkur Sæmundsson. Viðskiptalausnir sinna sölu, ráðgjöf, aðlögun og innleiðingu á viðskiptalausnum frá Oracle og Microsoft.
Nýr framkvæmdastjóri Þjónustulausna Skýrr er Laufey Ása Bjarnadóttir. Þjónustulausnir sinna fjarskiptalausnum, símalausnum, Internetþjónustu, gagnaflutningum og hýsingu í Windows-umhverfi, ásamt því að bjóða öryggislausnir, kerfisleigu og tölvurekstrarþjónustu.

Nýr forstöðumaður Þjónustuvers Skýrr er Anna Huld Óskarsdóttir. Þjónustuver veitir viðskiptavinum Skýrr fjölbreytta sérfræðiþjónustu allan sólarhringinn og sinnir vöktun og eftirliti með tölvukerfum utan og innan fyrirtækisins.

Framkvæmdastjóri fjármálasviðs Skýrr er Helgi Lárusson. Fjármálasvið veitir þjónustu á sviði fjármála, bókhalds, reikningagerðar, innheimtu og uppgjöra, ásamt því að sinna innri þjónustu og upplýsingakerfum.

Nýr forstöðumaður sölu hjá Skýrr er Guðmundur Axel Hansen. Sölusvið samræmir alla sölustarfsemi Skýrr hjá tekjusviðum fyrirtækisins og er ætlað að auka skilvirkni í sölu og hækka þjónustustig við viðskiptavini.

Forstöðumaður markaðssviðs Skýrr er Stefán Hrafn Hagalín. Markaðssvið veitir tekjusviðunum þjónustu á sviði sölu- og markaðsmála, sér um auglýsingar og kynningar og ber ábyrgð á innri og ytri samskiptum, almannatengslum og ásýnd fyrirtækisins.

Nýr forstöðumaður mannauðssviðs Skýrr er Ingibjörg Óðinsdóttir. Mannauðssvið veitir þjónustu á sviði starfsmannamála, árangurseftirlits, starfsþróunar, símenntunar, þjálfunar, þekkingar, varðveislu og þekkingarmiðlunar.

Forstöðumaður Gæða- og öryggissviðs Skýrr er Einar Ragnar Sigurðsson. Gæða- og öryggissvið veitir þjónustu við innleiðingu, eftirlit og framkvæmd gæðakerfa, ásamt því að hafa yfirumsjón með öryggismálum fyrirtækisins.

Nýr forstöðumaður Verkefnastofu Skýrr er Ólafur Halldórsson. Verkefnastofa stýrir sérverkefnum sem ganga þvert á fyrirtækið. Stofunni er ætlað að samræma vinnubrögð við þverfagleg verkefni og gefa yfirlit yfir öll verkefni sem eru í vinnslu.