Barack Obama, forseti Bandaríkjanna mun seinna í dag tilkynna opinberlega hven hann ætlar að skipa í embætti Hæstaréttardómara Bandaríkjanna til að fylla sæti Antonin Scalia sem lést fyrir um það bil mánuði.

The Wall Street Journal greinir frá því í að hann muni tilnefna Merrick Garland til embættisins, en miðillinn segist hafa öruggar heimildir fyrir því.

Bandaríkjaþing þarf að samþykkja tilnefningu Obama. Repúblikar eru í meirihluta í þinginu en þeir hafa áður sagt að þeir vilji ekki að Obama tilnefni dómara, heldur að það ætti að vera á hendi nýs forseta, sem verður kosinn í nóvember nk., að tilnefna dómara.

Fordæmi Hæstaréttar hafa mikið gildi fyrir lög landsins og miklu máli skiptir hverjir sitja í dóminum. Eins og er þá sitja fjórir dómara sem Demókratar hafa tilnefnt, almennt titlaðir sem frjálslyndir, og fjórir sem Repúblikar hafa tilnefnt, almennt tiltlaðir sem íhaldssamir. Sá dómari sem næst tekur sæti mun því að mestum líkindum hafa úrslita atkvæði í málum þar sem fylkingarnar eru ekki sammála.

Garland er 63 ára gamall og hefur frá árinu 1997 verið dómari við alríkis-áfrýjunardómstól í Washington DC (D.C. Circuit).