Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur látið hressilega til sín taka þrátt fyrir að stutt sé síðan hún tók við embætti. Hún hyggst meðal annars leggja fram frumvarp um breytingar á áfengislögum sem heimili smásölu áfengis í netverslunum hér á landi, en Íslendingar geta þegar keypt áfengi í smásölu frá erlendum netverslunum í skjóli Evrópureglna. Hún segir Sjálfstæðisflokkinn oft hafa skort áherslu á frelsismál, en andstaðan hafi fyrst og fremst komið frá öðrum flokkum.

Segja má að áfengisfrumvarp Áslaugar gangi skemur en mörg af fyrirrennurum þess, en þau hafa flest falið í sér heimild til smásölu áfengis í hefðbundnum verslunum, þótt stundum hafi fylgt sú krafa um að um sérverslun með áfengi eingöngu væri að ræða.

„Ég tel skynsamlegt nú að fara milliveg í slíkar breytingar með því að leyfa innlenda netverslun og ná um það víðtækari stuðningi,“ segir hún, en bann við innlendri netverslun sé hugsanlega brot á jafnræðisreglu og EES-samningnum, þar sem erlend netverslun sé heimil. „Íslenskir framleiðendur hafa þurft að flytja áfengi til útlanda og síðan aftur til landsins til að mega selja Íslendingum það á netinu. Þetta er auðvitað óboðlegt kerfi.“

Þá hefur hún lagt fram frumvarpsdrög þess efnis að reglur um mannanöfn verði rýmkaðar verulega eða felldar á brott, og mannanafnanefnd að sama skapi lögð niður. „Ég fer inn í þetta ráðuneyti með tvennt í huga: annars vegar frelsi og hins vegar að einfalda líf fólks.“

Bæði hafa þau, eða í það minnsta svipuð mál, komið ítrekað til kasta þingsins, en þau hafa verið afar umdeild og ekki fengið endanlega afgreiðslu sökum tafa á þinglegri meðferð þeirra. Samflokksmenn Áslaugar hafa verið meðal andstæðinga beggja breytinga, en hún segir andstöðuna á þingi fyrst og fremst hafa komið annars staðar frá.

„Ég finn mikinn stuðning innan flokksins fyrir þessum málum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur unnið að þeim og lagt mörg af þeim ítrekað fram, þótt einn og einn þingmaður í svona stórum flokki hafi sett sig upp á móti þeim. Það er auðvitað alltaf fólk sem telur að svona eigi ekki að fara að hlutunum, að hlutir eigi að vera óbreyttir, óbreytt sé betra.

Það eru hins vegar aðrir flokkar á þingi sem hafa staðið í vegi fyrir þessum málum, barist gegn því að þeim sé hleypt í atkvæðagreiðslu, neitað að gefa upp afstöðu til þeirra og sumir hverjir varla viljað ræða þau.“

Varðandi áhyggjur margra andstæðinga mannanafnafrumvarpsins af áhrifum á tungumálið segir Áslaug íslenskuna hafa varðveist ágætlega áður en mannanafnanefnd varð til. „Fólk virðist ekki hafa haft áhyggjur hér áður fyrr og gat skírt og nefnt börnin sín án afskipta slíkrar nefndar. Fyrir mér er um einfalt mál að ræða. Réttur fólks til að velja sjálfu sér og börnum sínum nafn á að vera ríkari en réttur samfélagsins til að takmarka þann rétt.“

Aðspurð segir Áslaug stundum hafa skort áherslu á slík hreinræktuð frelsismál innan flokksins. „Mér hefur oft þótt flokkurinn hafa mátt setja miklu meiri áherslu á frelsismál í gegnum tíðina. Það má ekki gleyma því hve mikilvæg þessi litlu mál eru, ekki bara fyrir stefnu flokksins, heldur bara fyrir fólk í sínu daglega lífi.“ Ýmis slík skref hafi þó verið stigin fyrir tilstuðlan flokksins, á borð við frjálst útvarp, litasjónvarp og afnám lögbundins helgidagafriðar. Síðan eru skattalækkanir og hagræðing í rekstri ríkisins auðvitað frelsismál.“

Nánar er rætt við Áslaugu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .