Stýrivextir á evrusvæðinu og Bretlandi haldast óbreyttir næsta mánuðinn. Seðlabankastjóri Evrópu gaf lítið upp um hvert næsta skref bankans yrði og vísaði hvoru tveggja til verðbólguþrýstings og frekari óvissu á fjármálamörkuðum. Fjármálaskýrendur segja að Englandsbanki vilji gefa sér meiri tíma til að meta hversu mikil áhrif hrunið á bandaríska fasteignamarkaðinum með undirmálslán muni hafa fyrir einkaneyslu almennings og umsvif í bresku efnahagslífi.

Ákvörðun Seðlabanka Evrópu og Englandsbanka í gær, um að halda stýrivöxtum sínum óbreyttum kom fæstum fjármálaskýrendum á óvart. Vextir á evrusvæðinu verða áfram 4% og gaf seðlabankastjórinn, Jean-Claude Trichet, til kynna að bankinn myndi ekki ráðast í stýrivaxtahækkanir í einhverjum flýti á næstu misserum, sökum áframhaldandi óvissu um þær afleiðingar sem lausafjárkrísan á fjármálamörkuðum muni hafa fyrir hagvöxt á evrusvæðinu.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.