Seðlabanki Evrópu ákvað í morgun að halda stýrivöxtum sínum óbreyttum í 2%.

Ákvörðun bankans var í takt við spár greiningaraðila en bankinn hefur fjórum sinnum lækkað vexti frá því í september þegar þeir voru 4,25%.

Í rökstuðningi bankans kemur fram að óbreyttir stýrivextir ætu að nægja til að koma hjólum efnahagskerfis evrusvæðisins í gang en bankinn útilokaði þó ekki frekari lækkun stýrivaxta á næstunni.

Viðmælandi BBC segir að bankinn sé augljóslega að hugsa það sama og Englandsbanki og Seðlabanki Bandaríkjanna, þ.e. að lágir stýrivextir komi hjólunum í gang, þó hann sé ekki tilbúinn að ganga jafn langt í lækkun stýrivaxta og hinir seðlabankarnir.

Englandsbanki lækkaði í morgun stýrivexti sína um 50 punkta, úr 1,5% í 1% en í Bandaríkjunum eru stýrivextir nú á bilinu 0% til 0,25%.

Búist er við því að  Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópu gefi það í skyn síðar í dag að stýrivextir bankans komi til með að lækka á næstu misserum.