Evrópski seðlabankinn hélt stýrivöxtum óbreyttum í 1%. Þrýst hefur verið á bankann að lækka stýrivexti í skugga skuldakreppunnar á evrusvæðinu. Seðlabankastjórinn Mario Draghi sagði á blaðamannafundi í morgun efnahagsbata á evrusvæðinu veikan og muni bankinn af þeim sökum ekki loka hirslum sínum svo bankar og fjármálafyrirtæki geti sótt sér lánsfjármagn á lágum vöxtum á meðan dyr almennra lánamarkaða eru þeim að mestu lokaðar.

Draghi benti sömuleiðis á að raunvextir séu neikvæðir og fylgist bankastjórnin grannt með verðbólguþróun á evrusvæðinu. Bankinn gerir ráð fyrir að verðbólga verði yfir markmiðum bankans út árið og verði á bilinu 1% til 2% að meðaltali á næsta ári. Þá er gert ráð fyrir að hagvöxtur verði á bilinu 0,3% til 0,5% en frá 2% til 3% árið 2013.