Bankastjórn Englandsbanka, seðlabanka Bretlands, greindi frá því í morgun að ákveðið hafi verið að halda stýrivöxtum óbreyttum í 0,5%. Til samanburðar eru 6,0% stýrivextir hér á landi. Vöxtunum í Bretlandi hefur verið haldið óbreyttum í meira en fimm ár í því skyni að koma efnahagslífinu í gang eftir kreppuna. Ætlunin er að halda áfram að styðja við hagkerfið með kaupum á veðum banka og fjármálafyrirtækja og koma með því móti í veg fyrir lausafjárþurrð.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir vaxtaákvörðunina í samræmi við væntingar þótt vísbendingar séu um að hagkerfið sé að að komast á réttan kjöl og íbúðaverð að hækka á ný. Því til staðfestingar hækkaði Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hagspá sína fyrir Bretland á dögunum. Þar á bæ er gert ráð fyrir 3,2% hagvexti á þessu ári í stað 2,4%. OECD varar engu að síður við hættunni á þenslu á íbúðamarkaði.