Samkeppnishæfni Íslands er á niðurleið samhliða því sem laun hafa hækkað meira en sem nemur framleiðniaukningu í hagkerfinu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OCED) um íslenska hagkerfið og kynnt var á blaðamannafundi í hádeginu. Til að sporna við versnandi samkeppnishæfni Ísland leggur OECD til að meiri áhersla verði lögð á að auka framleiðni og stuðla að sjálfbærri launaþróun.

Að mati skýrsluhöfunda OCDE er íslenska hagkerfið ekki eins opið og það gæti verið. Með því að opna hagkerfið meira er hægt að auka bæði framleiðni og samkeppnishæfni, auk þess myndi opnara hagkerfi ýta undir nýsköpun. Regluverk er víða óþarflega íþyngjandi í hagkerfinu að mati skýrsluhöfunda og miklar kröfur af hálfu stjórnsýslunnar skapa þröskuld fyrir innkomu nýrra fyrirtækja og hefta nýsköpun. Þá séu takmarkanir á fjárfestingar erlendra aðila með því mesta sem þekkist innan landa OCDE og það bitni á framleiðni og þekkingartilfærslu til landsins. Stjórnvöld ættu að draga úr þessum takmörkunum og jafna þannig aðstöðu í samkeppni erlendra og innlendra fyrirtækja.

Laun ættu að endurspegla betur framleiðniþróun í hagkerfinu og til þess ættu íslensk stjórnvöld að binda laun betur við framleiðniaukningu í hagkerfinu. Stuðla ætti að hreyfanleika vinnuafls yfir í framleiðnari greinar með aukinni menntun. Bent er á að vissulega stuðli lítill launamunur að jöfnuði en dragi úr hvata til menntunar og þar með aukinnar verðmætasköpunar.