Þann 1. mars næstkomandi munu félögin Oddi ehf. og OPM ehf. sameinast Kvos ehf. undir nafni Odda. Þorgeir Baldursson, sem nú er forstjóri Kvosar, verður forstjóri sameinaðs fyrirtækis, en Jón Ómar Erlingsson, núverandi framkvæmdastjóra Odda, lætur af störfum við sameininguna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Odda.

Kvos er í dag móðurfélag Odda og OPM og ber ábyrgð á fjárhag, rekstri, mannauði og tækni samstæðunnar. OPM heldur hins vegar utan um framleiðsluna og Oddi um sölu- og markaðsmálin. Kassagerðin og Plastprent hafa á undanförnum árum einnig verið sameinuð Kvosar-samstæðunni, en frá og með 1. mars verður öll þessi starfsemi rekin í nafni Odda.

Meirihlutaeigandi Odda er Kristinn ehf., en Þorgeir Baldursson, nýr forstjóri sameinaðs félags, og fjölskylda hans eiga megnið af öðru hlutafé.