Ódýrast er að fljúga frá Íslandi til Edinborgar samkvæmt verðkönnun Dohop, en meðalverðið á flugi þangað er rétt um 25.000 án töskuverðs með easyJet. Þar á eftir koma flug til London, Kaupmannahafnar og Manchester en meðalverð á flugi þangað er um 45 þúsund með töskuverði. Athuga ber þó að ofan á almenn flugverð bætist einungis við töskuverð. Sérþjónusta eins og forfallatrygging, sætaval, sérfarangur og bókunargjald getur bæst við hjá öllum flugfélögunum.

Með haustinu dregur úr samkeppninni á flugmarkaði þar sem færri flugfélög fljúga þá til og frá landinu en verðið lækkar þó að meðaltali um 17% frá því í júlí. Einnig getur verið verulegur verðmunur á milli lágfargjaldaflugfélöga og annarra flugfélaga sem fljúga á sama áfangastað, þrátt fyrir að töskuverð sé tekið með í myndina. Mestur verðmunur liggur milli Norwegian og SAS til Oslóar og svo milli Icelandair og easyJet til Manchester. En þar á eftir kemur svo verðmunurinn milli WOW air og Icelandair til Parísar en þar munar tæpum 19 þúsund krónum með töskugjöldum.