Mesta hækkun á flugfaragjaldi milli mánaða er til Helsinki en hún er um 46%. Þegar litið er á mestu lækkun á milli mánaða þá er Dusseldorf þar með 29% lækkun. En í heild var um 6,5% lækkun á meðalverði milli mánaða. Er þetta meðal niðurstaðna verðkönnunar Dohop , þar sem tekið er saman flugverð frá Íslandi næstu vikur og verð borin saman til áfangastaða þar sem samkeppni er á markaðnum.

Þegar horft er hvert ódýrast sé að fljúga næstu vikur kemur í ljós að Norwegian býður upp á ódýrasta flugmiðann eða að meðaltali 29.936 krónur til Óslóar. Icelandair býður upp á næst ódýrasta miðann að meðaltali 32.710 krónur Dýrasti flugmiðinn á listanum er til New York og er það flug með Icelandair sem kostar að meðaltali 92.172 krónur á þessum tíma. Tekið er fram í frétt á vefsíðu Dohop að engin samkeppni sé á þeirri flugleið.

Mestur verðmunur á einum áfangastað er á flugi til Helsinki þar sem tvö flugfélög eru með reglulegt áætlunarflug. Verð Finnair er 40,5% hærra en hjá keppinautnum Icelandair á þessari leið. Flugfélögin tvö eru einu flugfélögin sem fljúga beint til Helsinki.