Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og meðlimur í peningastefnunefnd Seðlabankans, virðist ósammála Ásgeiri Jónssyni, seðlabankastjóra og formanni peningastefnunefndar, þegar kemur að ábyrgð sveitarfélaga á hækkun fasteignaverðs að undanförnu.

Í viðtali við Morgunblaðið á miðvikudag gagnrýndi Ásgeir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fyrir að auka ekki lóðaframboð til nýbygginga á síðustu árum. Gaf hann í skyn að framboðsskorturinn sem af því hlytist ætti þátt í hækkandi fasteignaverði. Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 16% á milli ára. Er þetta ekki í fyrsta skiptið sem Ásgeir varpar ábyrgðinni á sveitarfélögin.

„Ég hef sagt að sú staðreynd að eiginlega ekkert sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu sé að brjóta nýtt land undir húsnæði sé að koma niður á okkur. Það þarf ekki að keyra lengi um bæinn til þess að sjá að það er nóg pláss fyrir okkur öll. Það hafa heldur ekki verið innviðafjárfestingar í Reykjavík að heitið geti síðustu ár. Það er að koma niður á okkur núna. Það er að valda hækkunum á markaðnum. Þær eru fyrst og fremst að koma fram miðsvæðis og það stafar af umferðinni. Fólk er að borga mjög hátt verð fyrir að komast í eignir sem liggja tiltölulega miðlægt,“ sagði Ásgeir í viðtalinu.

Gylfi virðist ósammála kollega sínum í peningastefnunefnd í grein sem hann ritaði í vikuritið Vísbendingu sem kom út í dag um hlut lóðaskorts í hækkandi fasteignaverði. Þar segir Gylfi lægri vexti meginorsök hækkandi fasteignaverðs. „Það er ekki skipulagsmistökum að kenna að húsnæðisverð hefur hækkað um víða veröld heldur áhrifum ódýrs lánsfjár,“ skrifar Gylfi í Vísbendingu.

„Vaxtahækkunin í síðustu viku var þess vegna alls ekki vegna þess að sveitarfélög hefðu ekki skipulagt ný hverfi heldur vegna þess að sú peningastefna sem hefur örvað hagkerfið á tímum COVID-19 á ekki lengur við, hún er of slök, og hætta er á verðbólgu.“

Í greininni rekur Gylfi að tilgangur vaxtalækkana í COVID-kreppunni hafi verið að örva hagkerfið. Lægri vextir stuðli að hærra eignaverði, „ekki einungis húsnæðisverðs heldur einnig verðs hlutabréfa, sumarbústaða og jafnvel listaverka,“ bendir Gylfi á.

Gylfi rifjar upp, líkt og Ásgeir hefur áður sagt að í upphafi faraldursins hafi Seðlabankinn haft áhyggjur af því að COVID kreppan myndi valda frosti á byggingamarkaði. „Hækkun fasteignaverðs frá miðju ári 2020 var ekki fyrirséð vegna þess að óttast var að farsóttin hefði neikvæð áhrif á húsnæðiseftirspurn. Hins vegar var vitað að vaxtalækkunin sjálf myndi hafa áhrif til hækkunar. Nú vitum við að fasteignverð hækkaði og hjálpaði hækkunin til með að halda uppi almennri eftirspurn eftir vörum og þjónustu í hagkerfinu á þessum erfiðu tímum, mildaði áfallið,“ segir Gylfi.

Lóðaskortur sé hins vegar ekki ástæða þess að fasteignaverð hafi hækkað jafn mikið og raun ber vitni að undanförnu og Seðlabankinn sé nú að hækka stýrivexti. „Það er ekki rétt eins og haldið hefur verið fram að vextir hafi verið hækkaðir á þessu ári vegna þess að lóðaskortur hafi haft í för með sér hækkun húsnæðisverðs sem síðan drífi verðbólguna áfram. Vextir voru hækkaðir vegna þess að hagkerfið er að ná sér á strik nú þegar áhrif farsóttarinnar virðast vera að fjara út og innlend eftirspurn að aukast. Þá er ekki þörf á því að peningastefnan sé jafn örvandi og áður og slíkt myndi skapa hættu á vaxandi verðbólgu.“