Mistök ollu því að Landsbankinn greindi frá því í vikunni að hann hafi leyst til sín samtals 1.325 íbúðir frá byrjun árs 2009 til loka febrúar á þessu ári. Íbúðirnar eru í raun rúmlega helmingi færri eða 605 talsins.

Netmiðillinn Spyr.is spurði bankana alla, Íbúðalánasjóð og Dróma, félagið sem heldur utan um eignir SPRON, og Frjálsa fjárfestingarbankans, hvað þeir hafi leyst til sín margar íbúðir frá 1. janúar árið 2009 og til loka febrúar á þessu ári.

Í svari Landsbankans sem Spyr.is og vb.is birtu í vikunni kom fram að íbúðirnar væru 1.325. Landsbankinn hefur nú skoðað gögn sín betur og komið í ljós að tölurnar voru ofmetnar árin öll nema það sem af er þessu ári. Árið 2009 leysti bankinn til sín 107 íbúðir, árið 2010 tók hann yfir 149 íbúðir, ári síðan eignaðist hann 188 íbúðir og í fyrra 134 íbúðir. Þetta jafngildir því að bankinn hafi að meðaltali leyst til sín 12 íbúðir á mánuði. Þá sem af er þessu ári hefur bankinn svo eignast 27 íbúðir.

Bankarnir eiga 1.700 íbúðir

Miðað við breyttar tölur frá Landsbankanum þá breytist talsvert myndin af því hvað bankarnir hafa leyst til sín margar íbúðir frá því á nýársdag árið 2009 til til loka síðasta árs. Þær eru nú 1.700 í stað 2.447. Þar af tók Íslandsbanki yfir 603 íbúðir, Landsbankinn tók eins og áður sagði yfir 604 íbúðir og Arion banki 492 íbúðir. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hversu margar íbúðir bankarnir hafa selt frá sér á sama tíma.