Og fjarskipti hf. (Og Vodafone) hafa fest kaup á 68% hlut í færeyska fjarskiptafyrirtækinu P/f Kall. Kaupverðið er um 440 m.kr. Með kaupunum hefur Og Vodafone eignast 82,1% hlut í færeyska fjarskiptafélaginu en fyrir átti það 14,1%. Viðskiptin eiga sér stað á genginu 18 en heildarhlutir í Kall eru 3.404.600. Kaupverðið verður annað hvort innt af hendi í peningum eða hlutabréfum á genginu 4,3 fyrstu vikuna í september. Greiðsluleiðin er val seljanda. Viðskiptin áttu sé stað með milligöngu Kaupþings banka í Færeyjum.

Kall er ört vaxandi fjarskiptafyrirtæki sem hefur um 15% markaðshlutdeild á færeyska fjarskiptamarkaðinum. Markaðshlutdeild félagsins á GSM markaði er um 25%. Stjórnendur Og Vodafone sjá tækifæri til vaxtar á færeyska markaðnum enda er notkun á fjarskiptaþjónustu enn sem komið er nokkuð minni en þekkist á Íslandi. Og Vodafone telur að hægt sé að samnýta tækniþekkingu og tæknibúnað fyrirtækjanna á hagkvæman hátt auk þess sem stefnt er að samvinnu í vöruþróun og markaðsmálum. Kall verður áfram rekið sem sjálfstætt færeyskt fyrirtæki. Hjá fyrirtækinu starfa 18 manns.

Áætluð velta P/f Kall er 650 m.kr. og EBITDA er áætluð um 130 m.kr. á árinu 2005. Velta félagsins nam 540 m.kr. á árinu 2004. Gert ráð fyrir jákvæðri afkomu á árinu eins og í fyrra. Áætlaðar fjárfestingar á árinu 2005 eru áætlaðar 12% af veltu en til lengri tíma um 10%. Vaxtaberandi skuldir félagins nema um 290 m.kr.

?Kaup Og Vodafone tryggja Kall forskot á önnur samkeppnisfyrirtæki í Færeyjum. Þá höfum við eignast eiganda sem hefur góða þekkingu á fjarskiptastarfsemi,? segir Bjarni Askham Bjarnason forstjóri Kall í tilkynningu til Kauphallarinnar. Hann segir að færeyskir neytendur eigi eftir að njóta góðs af kaupunum í formi nýrrar þjónustu sem komi hraðar á markaðinn en ella. ?Skilaboðin til markaðarins eru þau að færeyskur fjárskiptamarkaður er áhugaverður og að Kall sé komið til að vera. Þá verður Kall skráð félag með óbeinum hætti í Kauphöllinni á Íslandi og færeyskir almenningur mun hafa tækifæri til þess að kaupa hluti í sameiginlegu félagi,? segir Bjarni.

Eiríkur S. Jóhannsson, forstjóri Og Vodafone, segir að fyrirtækið hafi átt farsælt samstarf við Kall á ýmsum sviðum á liðnum árum. ?Um er að ræða fyrirtæki sem er vel rekið og hefur vaxið hratt. Kall er því álitlegur fjárfestingakostur og í raun skref í útrás Og Vodafone. Við gerum okkur vonir um að góður árangur Kall stuðli að enn meiri vexti Og Vodafone þegar til lengri tíma er litið,? segir Eiríkur.