Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir að í við endurskoðun stjórnarskrárinnar sé nauðsynlegt að horfa til þess að tryggja eignarhald almennings yfir auðlindum landsins. 21. Öldin sé öld almannaeignar en ekki séreignarréttar.

Þetta segir Ögmundur í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið. Þar fer Ögmundur yfir mikið fylgistap stjórnarflokkanna og samstarfið við Samfylkinguna, umsóknina að ESB og ástandinu innan VG en auk þess fjallar Ögmundur af afdrif og umsvif lífeyrissjóðanna.

Eftirfarandi kafli um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá og ummæli Ögmundar um séreignarréttinn rötuðu ekki í prentútgáfu blaðsins en verður þess í stað birtar hér í heild sinni.

„LÍÚ heldur því nú fram að frumvarp að fiskveiðistjórnun stríði mögulega gegn stjórnarskránni og gangi á eignarréttinn. Það er mjög skrýtið því sömu aðilar hafa sjálfir hamrað á því að þjóðin eigi sjávarauðlindina,“ segir Ögmundur.

„Mér finnst stjórnarskrárdrögin sem nú liggja fyrir frá stjórnlagaráði ekki nógu róttæk hvað þetta varðar. Það er ennþá hamrað á því að eignarrétturinn sé heilagur, nokkuð sem á að mínu mati ekki heima inni í 21. öldinni. Sú öld er öld almannaréttar. Það er hann  sem er grundvallarréttur og hann á stjórnarskrá að verja.“

Ögmundur segir að vissulega eigi menn rétt á heimili og til bújarðarinnar sem þeir nýta, en hann setji þó alvarlega fyrirvara við að gera einkaeignarréttinn algildan sem grundvallarmannréttindi.

„Mér finnst þó margt mjög  gott  í nýjum drögum að stjórnarskrá og vil að þau  gangi til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu. En krafan um almannarétt á að vera ríkjandi,“ segir Ögmundur.

„Þá vil ég rýmka enn lýðræðiskafla stjórnarskrárdraganna. Einnig þau eru of þröng. Banna til dæmis þjóðinni að krefjast kosninga um þjóðréttarsamninga eða skatta. Nefskatturinn felldi íhaldið breska í lok síðustu aldar. Ég vil geta krafist kosninga um slíkan skatt.“

Nánar er rætt við Ögmund í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.