Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi heilbrigðisráðherra segir að erfitt hefði verið að sjá hvernig forseti Íslands hefði getað komist að annarri niðurstöðu en hann gerði.

Þetta kemur fram á vef Ögmundar þar sem vísað er til þess að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands hafi í morgun synjað lögum um ríkisábyrgð á Tryggingasjóði innistæðueigenda vegna Icesave.

„Honum [Ólafi Ragnari] bárust undirskriftir fjórðungs atkvæðisbærra manna í landinu sem hvöttu til þjóðaratkvæðagreiðslu. Þennan lýðræðislega vilja hlaut forsetinn að virða. Það hefur hann nú gert,“ segir Ögmundur á vef sínum.

„Ég ítreka þá afstöðu mína að ríkisstjórnin á að sitja áfram. Hún var mynduð til að verja velferðarþjóðfélagið á Íslandi og má ekki hlaupa frá því ætlunarverki.“