Flestir sem þekkja vel til flug- og ferðaiðnaðarins  vita hversu sveiflukenndur sá iðnaður getur verið. Hryðjuverkaárásir, eldgos, hækkun á olíuverði og margt fleira getur gjörbreytt aðstæðum í rekstri flugfélaga eins og heldur betur hefur komið á daginn.

Tímasetningar geta jafnframt verið mikilvægar og því fékk breska flugfélagið British Midland International (BMI) að kynnast nýlega.

Á mánudaginn í þessari viku hóf BMI að fljúga daglega til frá Lundúnum til Tripoli í Líbýu. Flugfélagið kynnti legginn nýlega en BMI flýgur að mestu leyti til Afríku, Mið-Austurlanda og Mið-Asíu. Í kynningu á Tripoli leggnum segir að flugleggurinn henti viðskiptaferðamönnum vel sem og þeim sem hyggjast heimsækja fjölskyldur eða fara í frí.

„... miðbær Tripóli hefur einstakan karakter, þökk sé ríkri sögu, drífandi viðskiptalífi og afslöppuðu líferni,“ segir meðal annars í kynningu BMI þar sem ekkert er gefið eftir í orðavali til að lýsa fegurð, hreinleika og friðsældinni í Líbýu.

Í dag logar landið þar sem þar ríkir hálfgerð borgarastyrjöld þar sem andstæðingar einræðisherrans Muammar al-Gaddafi  hafa mótmælt harðstjóranum síðustu daga. Mikil lýðræðisbylgja hefur gripið um sig í mörgum ríkjum N-Afríku og Mið-Austurlanda eins og áður hefur verið fjallað um.

BMI er í eigu Lufthansa en eins og gefur að skilja hefur bókunarstaðan til Líbýu hrunið síðustu daga.