Í stóru viðtali í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins kallaði Katrín Olga Jóhannesdóttir, formaður Viðskiptaráðs, eftir opnara hugarfari gagnvart breytingum í viðskiptaumhverfi hér á landi jafnt sem annarstaðar, þar sem viðskipti eru sífellt að verða óháðari landamærum. Segist hún óttast að ef horft er of þröngt á umhverfi íslenskra fyrirtækja þá lúti þau í lægra haldi fyrir öflugum erlendum keppinautum, sem ekki er búinn jafn þröngur stakkur og hinum íslensku. Ýmsir aðilar í viðskiptalífinu taka undir orð Katrínar og ljóst að birtingarmynd breytts viðskiptaumhverfis er fjölbreytt og í mörg horn að líta.

Nýir miðlar hljóta að kalla á endurmat

„Ég held að almennt, hvort sem um er að ræða innkomu miðla á borð við Netflix og og Facebook á auglýsingamarkað eða aðila innan smávörumarkaðarins sem er meira en tuttugu sinnum stærri en íslenski ríkissjóðurinn í tekjum (Costco) þá hlýtur það að kalla á endurmat á starfsskilyrðum íslenskra fyrirtækja. Það liggur alveg ljóst fyrir,“ segir Finnur Árnason, forstjóri Haga. Hann tekur sem dæmi að áfengisauglýsingar og annað sé leyfilegt á þessum miðlum og flæði hér yfir á sama tíma og íslenskum aðilum sé bannað að auglýsa með sambærilegum hætti í íslenskum fjölmiðlum. „Það skortir í jafnræði á mörgum sviðum og ég held að það hljóti að þurfa að fara að taka frekara tillit til þess. Ég tel það eðlilegt að fyrirtækjum í samkeppni sé tryggð sambærileg umgjörð. Þannig eiga ekki að vera viðbótarkvaðir á íslenskum fyrirtækjum sem eru í samkeppni við önnur erlend fyrirtæki sem búa við meira frjálsræði,“ segir Finnur.

Markaðir skilgreindir of þröngt

Marta Guðrún Blöndal, lögfræðingur Viðskiptaráðs, tekur í sama streng og beinir sjónum sínum þá sérstaklega að samkeppnisumhverfi íslenskra fyrirtækja. „Við hjá Viðskiptaráði höfum talað fyrir því að samkeppnisyfirvöld gæti að jafnvægi milli virkrar samkeppni og stærðarhagkvæmni. Í McKinsey-skýrslunni, sem tók út íslenskt hagkerfi árið 2012, kom fram að framleiðni hér á landi væri lægri en í nágrannaríkjunum. Ein af stærstu ástæðunum fyrir því væri sú að við náum ekki sömu stærðarhagkvæmni og annars staðar. Við teljum að Samkeppniseftirlitið ætti að horfa til samkeppni í breiðara samhengi þegar það skilgreinir markaði, enda eru mörg íslensk fyrirtæki nú í samkeppi við erlenda aðila, jafnt sem innlenda,“ segir Marta

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.