„Nú er komin ný bráðabirgðaríkisstjórn á Íslandi og er engu líkara en að hennar brýnasta verkefni sé að skipta um yfirstjórn í Seðlabankanum, eða hreinsa þar út, eins og það hefur sumstaðar verið kallað. Nauðsyn á þessum (hrein)gjörningi er illa rökstudd. Afglöp finnast engin né nokkurskonar brot í störfum bankastjórnar.“

Þetta skrifar Hallgrímur Ólafsson, starfsmaður og formaður starfsmannafélags Seðlabankans í aðsendri grein í Morgunblaðið í dag.

Hallgrímur segir Seðlabankann starfa samkvæmt lögum, sem samin voru af þverpólitískri nefnd.

„Ekki minnist ég þess að andstaða hafi verið við frumvarpið sem varð að lögum í maí 2001,“ segir Hallgrímur.

Hann segir að peningamálastefnan (flotgengi og verðbólgumarkmið með vikmörkum) hafi verið mótuð í sátt áður en lögin tóku gildi og ekki hafi verið frá henni vikið síðan.

„Okkur starfsmönnum Seðlabankans hefur sviðið umræðan að undanförnu og erum þó ýmsu vön gegnum tíðina,“ segir Hallgrímur.

„Gegndarlaus áróður og sleggjudómar eru þvílíkir, að helst minnir á aðferðir skipulagðra öfgahópa. Fréttaflutningur hefur verið á einn veg. Eineltið beinist fyrst og fremst gagnvart formanni bankastjórnar, Davíð Oddssyni. Davíð sagði þetta og Davíð sagði hitt.“

Þá segir Hallgrímur að gjarnan sé talað um að losna þurfi við seðlabankastjórann eins og hann sitji einn.

„Lítilsvirðingin gagnvart hinum bankastjórunum tveimur, sem báðir eru hagfræðimenntaðir og eiga langan farsælan starfsferil að baki í Seðlabankanum, er algjör,“ segir Hallgrímur.

Þá víkur Hallgrímur einnig að peningamálastefnunni sem hann segir að hafi legið undir ásökunum um að hafa haldið uppi fölsku gengi á krónunni sem endaði með skelfingu.

„Ég er viss um að allflestir starfsmenn seðlabankans eru mér sammála um, að bankastjórarnir allir njóta trausts og virðingar innan bankans. Ekki hefur verið bent á nein afglöp né brot í starfi,“ segir Hallgrímur.

Að lokum segir Hallgrímur:

„Fullyrt er að Már Guðmundsson verði ráðinn í starf seðlabankastjóra eftir skipulags- og lagabreytingar. Már er flestum hnútum kunnugur innan bankans þar sem hann var aðalhagfræðingur um árabil. Hann er virtur, vinsæll og þótti góður verkstjórnandi og félagi. Hitt ber hins vegar að hafa í huga að Már var einn af aðalhöfundum fyrrnefndrar peningamálastefnu. Hún kom ekki í hús með Davíð eins og kjölturakki. Eflaust tekst hinni nýju ríkisstjórn að koma verkum sínum í framkvæmd enda hafa áður nefnd öfl unnið sitt áróðursstríð. Þrír mikilhæfir dáindismenn verða settir af, hvað sem það kostar. En ég vil óska að sannleikurinn komi í ljós og jafnvel réttlætið sigri að lokum.“