Ólafur Torfason, eigandi Íslandshótela, hefur keypt Blómavalsreitinn við hlið Grand Hótel Reykjavík og ætlar þar að opna fleiri hótelrými og byggja upp ráðstefnuaðstöðu fyrir erlenda sem innlenda gesti. Þetta kemur til viðbótar áformum hans um að reisa stærsta hótel landsins við Höfðatorg. Fjárfestingin við Höfðatorg nemur um 700 milljónum króna.

Ólafur segir í samtali við Markaðinn, fylgiblað Fréttablaðsins um viðskipti, að hann hafi alltaf horft öfundaraugum á Blómavalslóðina. Þar leynist gríðarleg tækifæri í plássinu öllu.

Ólafur blæs á fullyrðingar um offramboð á hótelrýmum á næstu árum. Ólafur á og rekur 13 hótel víða um land. Hann segir í samtali við blaðið mikilvægt að fjölga gistirýmum í Reykjavík:

„Við rekum mikið af hótelum úti á landi sem loka mörg yfir vetrartímann. Nýja hótelið á Höfðatorgi á eftir að veita rekstrinum meira jafnvægi yfir allt árið,“ segir hann og bætir við: „Ég er frekar hræddur um að ferðamennirnir komi að lokuðum dyrum á næsta ári þegar uppbyggingin er enn í vinnslu.“