Olíuverð er sem stendur orðið hærra en Icelandair átti von á að olíuverð yrði að meðaltali á ári árin 2021-2024, samkvæmt fjárfestakynningu félagsins í aðdraganda hlutafjárútboðs þess í september.

Olíuverð hefur hækkað hratt að undanförnu og hefur ekki verið hærra frá árinu 2019 ár. Verð á tunnu ef Brent hráolíu er sem stendur í um 68 dollurum en var í kringum 40 þegar hlutafjárútboð Icelandair fór fram í september og hefur því hækkað um 70%.

Verð á tonni á flugvélaeldsneyti stendur nú í 570 dollurum. Í fjárfestakynning Icelandair kom fram að félagið byggist við að flugvélaeldsneyti yrði að meðaltali um 402 dollarar á tonnið árið 2021 og myndi hækka í skrefum í 494 dollara á tonnið árið 2024. Verðþróunin byggði á stöðu framvirka samninga með flugvélaeldsneyti.

Ragnar Már Gunnarsson bendir á þessa staðreynd á Twitter.

Í fjárfestakynningunni var einnig bent á að Icelandair sæi fyrir sér lægri eldsneytiskostnað þar sem nýjar flugvélar í flota félagsins væru allt að 27% sparneytnari en eldri vélar. Stefna Icelandair er að verja sig gegn 40-60% af sveiflum í eldsneytisverði 12 mánuði fram í tímann.

Í fjárfestakynningunni kom fram að 10% hækkun eldsneytisverðs umfram spá Icelandair á árinu 2021 myndi rýra rekstrarhagnað Icelandair um 5,4 milljónir dollara, en 10,4 milljónir dollara árið 2022, 15,4 milljónir dollara árið 2023 og 18,5 milljónir dollara árið 2024.

Væntingar um þróun verðs á flugvélaeldsneyti í fjárfestakynningu Icelandair:

© Aðsend mynd (AÐSEND)