Brent-hráolía hefur hækkað um 6,09% og West Texas um 6,63%. Tunnan kostar nú um 39-41 Bandaríkjadal. Verðið hefur hækkað vegna þess að framleiðsla á bergbrotsolíu í Bandaríkjunum hefur dalað samhliða því að markaðurinn er bjartsýnn um að framboð á hráolíu muni dragast saman innan skamms, en stórframleiðendur munu funda um framleiðsluna í Doha höfuðborg Katar þann 17. apríl.

Olíubirgðir hafa lækkað mjög samkvæmt Orkugagnastofnun Bandaríkjanna, en í Cushing Oklahoma þar sem gífurlegt magn olíu er geymt hefur fækkað um nánast hálfa milljón olíutunna á stuttum tíma vegna þess að ekkert varð úr Keystone-olíupípunni sem Barack Obama stöðvaði framkvæmdir á um árslok 2015.

Fjármálamarkaðir hafa þá einnig farið hækkandi, en það ýtir undir bjartsýni fjárfesta um að eftirspurn fyrir olíu gæti farið hækkandi á næstu dögum.