Olíuverð hækkaði verulega í dag eða um rúm fimm prósentustig. Þetta mun vera mesta hækkun á olíuverði í meira en tvo mánuði. Ástæður þessa eru sagðar vera spenna í samskiptum Bandaríkjanna og Rússlands.

Tunnan af hráolíu kostar nú 121,34 Bandaríkjadali.

Reuters fréttaveitan greinir frá þessu.

Verð á olíu hefur nú hækkað um rúma átta Bandaríkjadali í þessari viku. Því eru verðlækkanir undanfarinna vikna í óða önn að ganga til baka. Olíuverð náði nýjum hæðum í sumar en verð lækkaði svo um 20 prósent síðan um miðjan júlímánuð.

Rússar sögðu í dag að þeir myndu bregðast við fyrirhuguðum eldflaugavarnastöðvum Bandaríkjanna í Póllandi. Diplómatískar leiðir myndu ekki duga í því samhengi.

Ástandið í Georgíu hefur aukið á spennuna og veldur það olíuverðhækkunum. Rússar slitu jafnframt samstarfi sínu við NATO vegna stuðnings aðildarríkjanna við stjórnvöld í Georgíu.

Hitabeltisstormar í Mexíkóflóa hafa einnig áhrif á hækkun olíuverðs.