Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, gerir ráð fyrir því að þingflokkur Framsóknarflokksins sé fylgjandi veiðum á hrefnu og langreyði á árunum 2009-2013.

Þetta kom fram í Kastljósi í kvöld.

Þetta þýðir að verði lögð fram tillaga á Alþingi um að afturkalla nýlega reglugerð sjávarútvegsráðherra, Einars K. Guðfinnssonar, um veiðar á hvölum - þá verður hún að öllum líkindum felld með atkvæðum sjálfstæðismanna, framsóknarmanna og hugsanlega einnig atkvæðum þingmanna Frjálslynda flokksins.

Umrædd reglugerð var gefin út 27. janúar sl. og hefur Einar verið gagnrýndur fyrir að gefa hana út svo skömmu áður en hann lætur af embætti sjávarútvegsráðherra.