„Það er enginn snúningur í þessu heldur er þetta gert til einföldunar. Þetta er tæknileg eftirfylgni á fjárhagslegri endurskipulagningu og partur af samkomulagi við bankann.

Olís bensínstöð
Olís bensínstöð
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Það lá fyrir að í beinu framhaldi af fjárhagslegriendurskipulagningu yrðu þessi bæði félög sameinuð olíufélaginu,“ segir Einar Benediktsson, forstjóri Olís. Olíufélagið hefur tekið yfir einkahlutafélögin Sandfell og GESE.


GESE heldur utan um eignahlut þeirra Einars og Gísla Baldurs Garðarssonar, stjórnarformanns Olís, í félaginu. Sandfell er jafnframt skráð á þá. Í félaginu er bensínstöð Olís í Norðlingaholti.

Einar segir að í kjölfarið verði Olís ekki lengur skráð á einkahlutafélag þeirra Gísla Baldurs heldur skrifað á þá persónulega.

Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að samrunaáætlun félaganna miðist við 1. janúar síðastliðinn. Miðað við áætlunina yfirtekur Olís eignir og skuldir félaganna beggja ásamt réttindum og skyldum.

Litlar upplýsingar liggja fyrir um afkomu félaganna þriggja á síðasta ári. Olís tapaði 65,9 milljónum króna árið 2010 og átti eignir upp á 16,5 milljarða króna. Eigið fé félagsins í lok ársins nam 1,4 milljörðum króna. Þar af nam hlutafé 670 milljónum króna. Á móti námu skuldir 15,1 milljarði króna.

Sandfell hagnaðist á sama tíma um 72 milljónir króna. Félagið skuldaði tæpar 580 milljónir króna í lok árs 2010 og var eigið fé félagsins neikvætt um 213 milljónir króna.

Staða GESE er hins vegar óljós en félagið hefur aðeins skilað þremur ársreikningum frá árinu 2003. Samkvæmt síðasta uppgjöri fyrir árið 2007 kemur fram að skuldir félagsins séu í erlendri mynt og nemi skuldbindingar gagnvart Landsbankanum 4.921 milljón króna. Skuldirnar voru á gjalddaga á þessu ári.

Viðskiptablaðið rifjaði upp í byrjun árs þegar greint var frá fjárhagslegri endurskipulagningu Olís, að þeir Einar og Gísli hafi fengið 5,5 milljarða króna kúlulán í erlendri mynt hjá Landsbankanum til að kaupa Olís fyrir átta árum. Það var upphaflega til tveggja ára en var framlengt nokkrum sinnum og á gjalddaga á þessu ári. Það sama gegnir um þessi lán og önnur gengislán, þau stökkbreyttust í gengishruninu og voru dæmt ólögmætt.

Hefur engin áhrif á stöðu Olíss

Lítið liggur fyrir um þær upphæðir sem felast í fjárhagslegri endurskipulagningu einkahlutafélags eigenda Olís að öðru leyti en því að Landsbankinn leiðrétti og færði niður hluta af lánum félagsins í samræmi við dóma um ólögmæti gengislána auk þess að endurskipuleggja önnur lán. Eins liggja ekki fyrir upplýsingar um það hversu hluti niðurfærslu lána er vegna leiðréttinga gengistryggðra lána og hve mikið Landsbankinn þarf að gefa eftir af skuldum.

Til viðbótar við fjárhagslegu endurskipulagninguna koma nýir hluthafar að Olís. Viðskiptablaðið greindi frá því í vor að hluthafarnir Samherji og FISK Seafood, félag Kaupfélags Skagfirðinga, séu þar á meðal. Ákvörðun um aðkomu nýrra hluthafa liggur enn á borði Samkeppniseftirlitsins. Fram kom í Fréttablaðinu í apríl að í febrúar hafi hlutafé Olís verið lækkað um 75% og hækkað um sama hlutfall. Hlutafjárlækkunin var framkvæmd til jöfnunar taps. Þá sagði í blaðinu að félag þeirra Einars og Gísla ætti eftir breytinguna 25% hlut í Olís.

Einar vill ekki segja til um hver staða félags þeirra Gísla verði þegar yfir lýkur. Greint verði frá því þegar að því komi. Hann segir hins vegar yfirtökuna engin áhrif hafa á fjárhagsstöðu Olíss enda um formsatriði að ræða.

Einar Benediktsson og Gísli Baldur Garðarsson
Einar Benediktsson og Gísli Baldur Garðarsson
© vb.is (vb.is)
Einar Benediktsson, forstjóri Olís, og Gísli Baldur Garðarsson.