Olíuverzlun Íslands, betur þekkt sem Olís, er til sölu en Arctica Finance hefur verið falið að sjá um söluráðgjöf fyrir eigendur félagsins. „Það hefur orðið samkomulag milli allra hluthafa félagsins að kanna með sölumöguleika. Enda telja menn góða sölumöguleika í dag fyrir gott fyrirtæki. Það hefur verið samið við Arctica Finance að vinna að því máli,“ segir Einar Benediktsson, forstjóri Olís, í samtali við Viðskiptablaðið.

Allt hlutafé til sölu
Einar á sjálfur 12,5% hlut í fyrirtækinu líkt og Gísli Baldur Garðarsson en Samherji og FISK-Seafood, dótturfélag Kaupfélags Skagfirðinga, eiga hvor um sig 37,5%. Samherji og FISK-Seafood komu inn í eigendahóp félagsins árið 2012 í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins.

Baldvin Þorsteinsson, sem situr í stjórn Olís fyrir hönd Samherja, segir í samtali við Viðskipablaðið að ekki hafi verið settur neinn tímarammi um það hvenær sölu eigi að vera lokið. Hluthafar telji þetta aftur á móti góða tímasetningu til að setja félagið í söluferli.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .